Erfðanefnd landbúnaðarinsFrétt
Senda fyrirspurn
Minnka letur
Stækka letur
In English

Tenglar

LANDSÁÆTLUN 2014-2018

ERFDALINDASETUR LBHÍ

 

STEFNUMÖRKUNARÁÆTLUN

ERFÐANEFNDAR 2009-2013

 

MÁLÞING ERFÐANEFNDAR OKT 2010

 

NordGen

 

GLOBALDIV

 

ELBARN

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

22.febrúar.2010

Áhugaverð erindi á Fræðaþingi Landbúnaðarins 2010

Mynd með frétt

Á nýafstöðu Fræðaþingi Landbúnaðarins sem haldið var dagana 18.-19. febrúar sl.voru flutt áhugaverð erindi um mörg af þeim málum sem snerta landbúnað á Íslandi. Meðal erindanna voru niðurstöður verkefna sem snúa að íslensku geitinni, kúnni og hrossunum. Stuttar samantektir úr þessum þremur erindum gefur að líta hér að neðan.
Nánar er svo hægt að lesa um efni allra erindanna sem flutt voru á Fræðaþinginu í ráðstefnuriti sem gefið var út á þinginu en efni ritsins verður aðgengilegt inn á greinasafni landbúnaðarins von bráðar. Ennfremur verður hægt að hlusta á erindi þingsins gegnum netið hér á síðu Bændasamtaka Íslands.


Erfðafjölbreytileiki innan íslenska geitfjárstofnsins

Höf: Birna Kristín Baldursdóttir, Þorvaldur Kristjánsson og Jón Hallsteinn Hallsson

 

Birna notaði bæði ætternisgögn og greiningar á erfðaefni (örtunglagreiningar og raðgreiningar á hluta hvatberaerfðamengisins) til að leggja mat á erfðafjölbreytileika í íslenska geitfjárstofninum. Ætternisgögnin nýttust við útreikninga á skyldleikaræktaraukningu, ættarstuðli, ættliðabili, virkri stofnstærð og fleiri tengdum stærðum. Greiningar á hvatberaröðum voru notaðar til að bera íslenska stofninn saman við ýmis erlend kyn og reiknaðar voru algengar stærðir með tilliti til erfðafjölbreytileika útfrá örtunglagreiningum.

Þrátt fyrir að ólíkum nálgunum hafi verið beitt undirstrika allar niðurstöður verkefnisins þá erfðafræðilegu einsleitni og skyldleikarækt sem ríkir í íslenska geitfjárstofninum. Stofninn er mjög smár og hefur gengið í gegnum erfðafræðilega flöskuhálsa í gegnum tíðina auk þess sem skipulagt kynbótastarf er ekki til staðar og ætternisskráningum því mjög ábótavant. Talið er brýnt að bæta ætternisskráningar ásamt því að fylgjast grannt með stofninum og huga að því hvernig best sé hægt að standa vörð um hann.

 

Erindi Birnu byggir á ritgerð hennar til M.Sc. gráðu við LbhÍ en Birna stefnir á útskrift nú í vor.

 

Íslenska kúakynið – viðhorf neytenda og varðveislukostnaður

Höf: Daði M. Kristófersson, Magnús B. Jónsson, Emma Eyþórsdóttir, Elín Grethardsdóttir og Grétar Hrafn Harðarson

 

Kynntur var hluti stærra verkefnis sem miðar að því að meta verðmæti íslenska kúakynsins út frá sjónarmiðum um verndargildi búfjárstofna og jafnframt að meta kostnað við áframhaldandi ræktun kynsins annars vegar sem framleiðslukyns og hins vegar sem verndunarstofns sem varðveittur væri til hliðar við innflutt framleiðslukyn. Í erindinu var greint frá niðurstöðum viðhorfs- og greiðsluviljakönnunar sem gerð var meðal almennings í janúar 2010. Niðurstöður könnunarinnar sýndu að neytendur eru almennt mjög jákvæðir í garð íslenskrar mjólkurframleiðslu, íslenskra mjólkurvara og kúakynsins.

Niðurstöðurnar eru jákvæðar fyrir íslenska kúabændur því eins og kemur fram í erindinu þá kæmi sértækur greiðsluvilji neytenda til með að draga úr neikvæðum afleiðingum tilslakana á innflutningshöftum fyrir mjólkurvörur. Þetta verða einnig að teljast góðar fréttir fyrir þá sem aðhyllast áframhaldandi varðveislu og nýtingu íslenska kúastofnsins því eins og höfundarnir benda á er skilvirkasta leiðin til þess að varðveita skilgreindan erfðahóp oft talin vera að nýta hann sem framleiðslukyn sé það mögulegt.

 

Skyldleiki norrænna hestakynja skoðaður með örtunglum og rannsóknum á hvatberaerfðamengi

Höf: Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir og Jón Hallsteinn Hallsson

 

Meginmarkmið verkefnisins er að leggja mat á tengsl íslenska hesta við erlend kyn og þar með öðlast hugmynd um uppruna íslenska hrossastofnsins ásamt því að meta erfðafræðilega stöðu stofnsins. Í þeim hluta verkefnisins sem byggði á örtunglagreiningum voru notuð gögn úr gagnagrunni íslenska hestsins, WorldFeng þar sem greiningar með 11 örtunglum liggja fyrir. Gögnum var einnig safnað fyrir sömu örtungl úr sex norrænum hestakynjum. Rannsóknir á hvatberaerfðamengi tóku til alls 1.709 sýna frá 83 hrossakynjum. Niðurstöður úr örtunglagreiningum sýna að íslensk og færeysk hross skera sig talsvert frá hinum norrænu hrossakynjunum. Niðurstöður úr greiningum á hvatberaerfðamenginu gefa ennfrekar til kynna skyldleika íslenska hestsins við færeyska hestinn ásamt tengslum íslenska stofnsins við Hjaltlandseyjahestinn. Íslenski hesturinn virðist minna eiga sameiginlegt með þeim norrænu hestakynjum sem skoðuð voru í rannsókninni þegar horft er á samsetningu setraða í hvatberaerfðamenginu. Höfundur ályktar þó að hugsanlega megi rekja uppruna eyjakynjanna þriggja; íslenskra og færeyskra hrossa ásamt Hjaltlandseyjahestinum, bæði til Skandinavíu og Bretlands.

 

Erindi Gunnfríðar byggir á rannsókn hennar til Ph.D. gráðu við LbhÍ en Gunnfríður stefnir á að ljúka því námi á árinu.

Til baka Byggir á LiSA - Eskill, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi


Leit

Leitarvél