Erfðlindasetur LbhÍÖnnur verkefni
Senda fyrirspurn
Minnka letur
Stækka letur
In English

Rannsóknarverkefni á vegum LbhÍ sem tengjast íslenskum erfðaauðlindum

 

Yfirlit:

Blendingsrækt í sauðfé

Erfðafjölbreytileiki innan íslenska kúastofninum

Erfðafjölbreytni í kúmeni

Erfðafjölbreytni í norrænni hvönn

Erfðastuðlar kjöteiginleika

Kynbótamat búfjár

Kynbætur háliðagrass

Norrænar erfðaauðlindir vallarfoxgrass (samnorrænt verkefni styrkt af NKJ)

Verðmæti íslenska kúastofnsins

 

Blendingsrækt í sauðfé

Umsjón: Emma Eyþórsdóttir, dósent LbhÍ, emma@lbhi.is

Markmiðið er að meta hvort blendingsþróttur komi fram í afkvæmum kollóttra og hyrndra kinda sem paraðar eru saman. Framkvæmdahluti verkefnissins hefur þegar farið fram á 12 sauðfjárbúum þar sem bæði var hyrnt og kollótt fé. Niðurstöður fengust um lífþunga, fallþunga og kjötmat lamba úr pörunum (og ómmælingum að hluta). Að auki var upplýsingum um hornalag lambanna safnað á hluta búanna.

Uppgjörsvinna við verkefnið er í gangi og niðurstöður þess verða kynntar á málþingi Landssamtaka sauðfjárbænda í apríl 2010. Hér má nálgast grein um niðurstöður sem birtist í Riti LbhÍ nr 42

Erfðafjölbreytileiki innan íslenska kúastofnsins

Umsjón: Jón Hallsteinn Hallsson, lektor LbhÍ, jhh@lbhi.is

Verkefni þetta felur í sér greiningar á erfðaefni íslenskra kúa með aðferðum sameindaerfðafræðinnar og skiptist í eftirfarandi þrjá hluta: Örtunglagreiningar, greiningar á einkirnabreytileika og greiningar á erfðafjölbreytni í D-lykkju hvatbera erfðamengisins. Tveimur fyrri hlutum verkefnissins hefur þegar verið lokið. Niðurstöður þeirra rannsókna hafa leitt í ljós áhugaverðar staðreyndir um stöðu erfðafjölbreytileika innan íslenska kúakynsins og mikilvægi varðveislu breytileikans í áframhaldandi ræktunarstarfi. Ennfremur hafa niðurstöður úr örtunglagreiningunni hagnýtt gildi í kynbótastarfi og eru Bændasamtök Íslands þegar byrjuð að nýta sér þær. Hluti verkefnisins var M.Sc. verkefni Margrétar Guðrúnar Ásbjarnardóttur við LbhÍ og lauk því námi haustið 2008.

Erfðafjölbreytni í kúmeni

Umsjón: Áslaug Helgadóttir, prófessor LbhÍ, aslaug@lbhi.is

Kúmen er ein af mikilvægustu kryddplöntunum á norðurslóð og hefur verið nýtt til þess að bragðbæta brauð, ost og ákavíti. Erfðafjölbreyti kúmens á Norðurlöndunum hefur ekki verið rannsökuð en forkönnun á efnainnihaldi hefur sýnt að bæði magn og hlutfall nauðsynlegra olía getur verið mjög breytilegt. Markmið verkefnisins eru að (i) ákveða skyldleika milli erfðahópa kúmens á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum, (ii) mæla innihald virkra rokefna og andoxunarefna í þessum erfðahópum, (iii) rannsaka menningarsögu kúmens á Íslandi og (iv) auka vitund ræktenda og almennings um sérkenni kúmens og finna leiðir til þess að nýta það við þróun nýrra afurða. Erfðafjölbreytni verður rannsökuð með aðferðum sameindaerfðafræðinnar, rokgjarnar fitusýrur og andoxunarefni verða mæld í gasgreini og loks verða prentaðar heimildir og gögn í skjalasöfnum nýtt til þess að rannsaka menningarsögu kúmens á Íslandi.

Einangrun Íslands gæti hafa leitt til þess að kúmen sem hér vex búi yfir einstökum eiginleikum sem má nýta við þróun sérafurða. Verkefninu er ætlað að afla nýrrar þekkingar sem mun gagnast stækkandi markaði fyrir hágæða sérvörur af norrænum uppruna – Norrænt terroir – eins og í hávegum er haft í áætlun Norrænu ráðherranefndarinnar Nýr norrænn matur og matargerðarlist.

Samstarfsaðilar: Eva Þorvaldsdóttir, Grasagarðinum í Reykjavík, Agnese Kolodinska Brantestam og Magnus Göransson, NordGen – Nordic Genetic Resource Center, Ildikó Nóvak, Corvinus University of Budapest, Lars Kragelund, Pernod Ricard Nordic, Ingólfur Guðnason og Laufey Steingrímsdóttir, Matur Saga Menning, Erfðalindasetur LbhÍ og Erfðanefnd landbúnaðarins.

Erfðafjölbreytni í norrænni hvönn

Umsjón: Áslaug Helgadóttir, prófessor LbhÍ, aslaug@lbhi.is

Markmið verkefnisins er að rannsaka erfðafræðileg tengsl milli íslenskra hvannastofna (Icelandic Angelica) og annarra norrænna hvannastofna og afbrigða, þ.á.m. er norskur stofn með gegnheilan stöngul sem kallaður er Voss-Hvönn (Voss-Angelica).

Ennfremur er markmiðið að varpa ljósi á erfðabreytileika innan og milli íslenskra hvannarafbrigða. Safnað verður sögulegum upplýsingum um hvannarrækt á Íslandi í tvenns konar tilgangi: Annars vegar til að finna hentuga sýnatökustaði og hins vegar til að safna saman sögulegum og almennum fróðleik um hvönn. Sýni verða greind með tilliti til arfgerða auk þess sem upplýsingum verður safnað um svipgerð plantna og GPS hnit tekin á söfnunarstöðum. Sameindafræðilegar greiningar verða framkvæmdar á rannsóknarstofum NordGen í Svíþjóð og sömu aðferðum beitt á íslensk, grænlensk og færeysk sýni.

Niðurstöðurnar úr verkefninu munu gefa verðmæta þekkingu á erfðafræðilegum bakgrunni íslenskrar og norrænnar hvannar og þannig veita tækifæri til frekari rannsókna á sýnum hvað varðar efnainnihald og bragð sem síðan geta nýst í verkefnum á borð við Nýr norrænn matur og matargerðarlist (New Nordic Cuisine).

Samstarfsaðilar: Magnus Göransson, Svein Solberg og Morten Rasmussen, NordGen – Nordic Genetic Resource Center, Bertalan Galambosi, MTT, Finnlandi, Ann Sofie Hardenberg, Anso / New Nordic Food Ambassadeur, Grænlandi, Ingólfur Guðnasson, Engi / Matur-Saga-Menning, Íslandi, Åsmund Asdal, Plantearven, Noregi, Gunhild Børtnes, Bioforsk Øst, Noregi.

Erfðastuðlar kjöteiginleika

Umsjón: Emma Eyþórsdóttir, dósent LbhÍ, emma@lbhi.is

Starfsmaður: María Þórunn Jónsdóttir, LbhÍ, nem.mariaj@lbhi.is

Markmið verkefnisins er að meta arfgengi ómmælinga á vöðva- og fituþykkt og kjötmatseinkunna út frá umfangsmiklum gögnum úr skýrsluhaldi sauðfjárræktarinnar og í framhaldi af því að meta erfðafylgni ómmælinga á lifandi lömbum og kjötmatsins. Niðurstöður úr verkefninu munu gefa til kynna hvort hægt sé að nýta ómmælingar betur í kynbótastarfinu og e.t.v. taka þær inn í BLUP útreikninga á kynbótagildi en slíkt er ekki gert í dag. Ennfremur fæst endurmat á þá erfðastuðla kjötmatseiginleikanna sem upphaflega voru reiknaðir eingöngu út frá niðurstöðum fyrsta ársins með EUROP-kjötmatinu.

Kynbótamat búfjár

Umsjón: LbhÍ

Þjónustuverkefni við Bændasamtök Íslands sem felur í sér útreikninga á kynbótamati með BLUP einstaklingslíkani. Reiknað árlega fyrir þrjá stærstu búfjárstofnana.

Kynbætur háliðagrass

Umsjón: Guðni Þorvaldsson, prófessor LbhÍ, gudni@lbhi.is

Árið 1994 var háliðagrasplöntum safnað úr 30-60 ára gömlum túnum um allt land. Farið var á 100 bæi víðsvegar um landið og 15 plöntum safnað á hverjum stað. Hverri plöntu var skipt í þrennt og búið til hnausasafn með 1500 einstaklingum í þremur endurtekningum, alls 4500 plöntur. Safnið var svo metið næstu tvö árin og þar var m.a. horft til uppskeru, vaxtarlags, skriðtíma og þols gegn sveppum. Að þessu mati loknu voru valdar út 36 arfgerðir til framræktunar. Fræ úr þessu úrvali er nú í fjölgun. Efniviðurinn hefur verið prófaður í nokkrum tilraunum og komið vel út.

Söfnunin var styrkt af Norræna genbankanum á sínum tíma

Norrænar erfðaauðlindir vallarfoxgrass (samnorrænt verkefni styrkt af NKJ)

Umsjón: Áslaug Helgadóttir, prófessor LbhÍ, aslaug@lbhi.is

Um er að ræða samnorrænt verkefni sem hlotið hefur stuðning á vettvangi NKJ. Meginmarkmið þess er að treysta varðveislu og bæta nýtingu á norrænum erfðaauðlindum vallarfoxgrass með ítarlegum mælingum á breytileika í svipgerð og arfgerð. Breytileiki í svipgerð verður mældur í hnausasöfnum á þremur stöðum (Íslandi, Svíþjóð, Noregi) og arfgerðarbreytileiki verður metinn með aðferðum sameindaerfðafræðinnar í Noregi, Finnlandi og Danmörku, annars vegar út frá sögulegri og núverandi útbreiðslu tegundarinnar og hins vegar fyrir mikilvæga eiginleika eins og vorun (vernalisation response) og frostþol. Á tilraunastöðinni á Korpu verður lagt út hnausasafn með 20 einstaklingum úr 200 vallarfoxgrasstofnum af ólíkum uppruna vorið 2007. Safnið verður metið m.t.t. ýmissa útlitseiginleika og vetrarþols fram á vor 2009. Uppgjör á niðurstöðum verður að mestu unnið í Noregi en verkefnishópurinn mun sameiginlega standa að greinaskrifum.

Samstarfsaðilar: Dr. Odd Arne Rognli, Universitet for miljø og biovitenskap, Noregi (UMB), Dr. Jens Weibull, Center for biologisk mångfold (CBM), Svíþjóð, Dr. Thomas Lübberstedt, Århus Universitet, Det Jordbrugsvidenskabelige Fakultet, Danmörku, Dr. Outi Manninen, MTT AgriFood Research, Finnlandi.

Verðmæti íslenska kúastofnsins

Umsjón: Emma Eyþórsdóttir, dósent LbhÍ, emma@lbhi.is

Verkefnið felur í sér mat á kostnaðinum við að varðveita íslenska kúakynið sem lifandi og virkan erfðahóp. Jafnframt að meta erfðafræðileg verðmæti íslenska kúakynsins og helstu þjóðhagsleg áhrif mismunandi valkosta um framtíð kynsins.

Bornir verða saman eftirfarandi valkostir:

1. Að byggja áfram einvörðungu á íslenska kúakyninu sem megin stofni í mjólkurframleiðslu hérlendis til frambúðar og mjólkurframleiðsla í framtíðinni eins og nú er byggð á íslenska kúakyninu

2. Að varðveita íslenska kúakynið sem erfðahóp með skírskotun til þess líffræðilega fjölbreytileika sem þar með varðveitist og mjólkurframleiðsla framtíðarinnar verði þá í megindráttum byggð á nýju kúakyni.

Ennfremur verður lagt mat á verðmæti stofnsins út frá mismunandi sjónarhornum, þ.e. erfðafræðilegum, menningarlegum og samfélagslegum sjónarmiðum.

Stefnt er að því að meta kynbótastarf og hvernig unnt er að viðhalda erfðaframför og jafnframt lágmörkun skyldleikaræktar (optimized selection approach). Ennfremur að meta helstu þætti í hugsanlegri verndaráætlun s.s. nauðsynleg stærð stofnsins og landfræðileg dreifing, kynbótaskipulag o.fl. Þá verður skoðað hvernig yrði staðið að fyrirkomulagi vinnslu og sölu afurða íslenska kynsins ef til innflutnings á nýju kúakyni kemur.

Töluverð heimildavinna hefur verið unnin svo hægt sé að fá yfirlit yfir aðferðir á mati á verðmæti búfjárkynja út frá ýmsum sjónarhornum og það sem vitað er um íslenska kynið í því samhengi. Einnig hefur verið framkvæmd könnun meðal almennings um greiðsluvilja (Willingness to Pay - WTP) fyrir áframhaldandi notkun kúakynsins sem framleiðslukyns og varðveislu þess. Niðurstöður könnunarinnar sýndu að neytendur eru almennt mjög jákvæðir í garð íslenskrar mjólkurframleiðslu, íslenskra mjólkurvara og kúakynsins.

Framundan er m.a. að leggja betur mat á valkosti varðandi verndun kúakynsins og nýta til þess reiknilíkun. Fyrirhugað er að ljúka verkefninu með ítarlegri skýrslu sem tekur á ofangreindum þáttum.

Efst á síðu

Byggir á LiSA - Eskill, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi